Ro, ro, ro din båt

15042014190

15042014192

Hátíðarkvöldverður á seinasta skóladeginum fyrir páskafrí. Nemendur og kennarar skipulögðu hann í sameiningu. Mörg skemmtileg skemmtatriði og uppákomur voru á boðstólnum auk góðs matar. Ég tók þátt í að gera borðnúmer (hvern hefði dottið í hug að ég hefði farið aftur í ,,myndmennt“?) auk þess sem íslenskur harðfiskur rataði meira að segja í ,,fællessangen“ við ágæta hrifningu flestra íslendinganna að ég held.

15042014184

15042014183

Í seinustu vikunni fyrir páska var engin hefðbundin kennsla heldur var starfið brotið upp með ýmsum hætti. Fórum meðal annars í dagsferð þar sem við fórum til dæmis upp á Himmelbjerget og nokkra fleiri landsþekkta staði sem eru ekkert of langt hérna frá.

14042014168

14042014167

14042014165

14042014164

Annað sem gert var að það var haldin róðrakeppni en þá var þeim nemendum sem voru hérna skipt niður í hópa og fékk hver og einn hópur ákveðið mikið af pappakössum, pappír og plasti til að búa til sinn eigin bát sem átti að geta siglt með tvær manneskjur. Síðan var farið í sundlaugina og keppt í róðri. Minn hópur bjó til bátinn Hjemm-is og komst ansi langt (Hvað segið þið kæru sundfélagar heima, er þetta ekki tilvalin leið til að bregða út af vananum? Það var allavegana rífandi stemming hérna og ég var meira að segja þáttakandi).

14042014160

Við komum einnig saman í Musikhuset og sungum saman í kór undir stjórn eins tónlistarkennarans.

13042014159

Síðustu helgi lentum við hins vegar í ,,skemmtilegri“ reynslu þegar þessi súpa var á boðstólnum í kvöldmat. Hún innihélt greinilega slatta af chilli og hafði verið geymd frosin og var síðan svo sterk þegar hún var borin fram að það lá við að hún brynni kjaftinn og magann á mér til grunna á tímabili. 

13042014158

Þessi skemmtilega teikning rataði einnig upp á töfluna hér í andyrinu í vikunni. Fyrir ykkur sem sáuð hana ekki á Facebook eða hafið ekki lesið síðasta pistil, þá er þetta ég og annar íþróttakennarinn hérna að berjast að fullum krafti í hnefaleikunum sem við fórum í síðustu viku, og sannar þar með að ég var fullur þáttakandi. Ég barðist ekki eingöngu við hann heldur var einnig í pari við annan skólafélaga og þann sem tók myndina. 

 

13042014154

Kíkti einnig aðeins inn í ,,gymmið“ hérna ásamt fleirum í þessari viku. Það er reyndar lítið eða ekkert notað í kennslunni hérna þar sem kennararnir hafa nánast þá staðföstu trú að líkamsþyngdin ein dugi sem lóð ásamt teygjum og eitthverjum smáhlutum, séu æfingarnar gerðar rétt, auk þess sem hægt sé að nota umhverfið og náttúruna.

16042014193

Þessa teikningu mátti finna á töflunni í andyrinu hérna á fyrsta degi páskafrís. Þeir sem eru hérna í fríinu (þar á meðal ég) sjá sjálfir um að skippuleggja daginn og sjá alfarið um sig sjálfir í mat og slíku og það hefur allavega ekkert klikkað enn.

Þá eru komnir páskar og páskafrí hér í skólanum. Dagarnir hafa gengið vel en nú má segja að komið sé að ,,hálfleik“. Nú hef ég brátt verið hér í átta vikur sem þýðir að námskeiðin sem ég valdi þegar ég kom hingað eru brátt á enda. En þá hefst ný átta vikna lota og þar með ný námskeið, vonandi jafn skemmtileg og þau sem ég hef verið á hingað til.

Þessar átta vikur hafa verið mjög skemmtilegar og ég hef upplifað margt og síðast en ekki síst kynnst fjölmörgu skemmtilegu fólki og eignast góða vini. Ég er ekki frá því að það verði kannski svolítið erfitt að kveðja en það er ekki strax svo það þarf ekki að hugsa um það. Enda held ég að flestir þeir sem til mín þekkja eða hafa verið í kringum mig, fylgst með mér eða stutt á einn eða annan hátt geti tekið undir það að ég hafi skemmt mér hingað til, eins og aðstoðarkonan mín minntist á við mig eitt kvöldið hérna eftir að það hafði verið útitími í styrkefitness: ,,Það var svo gaman hjá þér í styrkefitness í dag þegar ég sá til þín að það sást ansi langar leiðir“. En því er ekki að leyna að ég er komin með smá hnút í magann yfir því hvað verður þegar ég kem heim. Undanfarna daga hefur ýmislegt flogið í gegnum hausin á mér af og til, eins og til dæmis; ,,Hverjir ætli hugsi til mín, taki vel á móti mér og styðji þegar ég kem heim aðrir en foreldrar mínir og nánasta fjölskylda?“ En á sama tíma veit ég að þetta er mögulega óþarft, því það er fullt af góðu fólki sem hugsar til mín  og þegar á hólminn kemur er þetta örugglega með betri ákvörðunum sem ég hef tekið og margir geti tekið undir það og lífið verður skemmtilegt þegar ég kem heim, með hjálp þess sama fólks. Því geri ég bara eins og pabbi sagði: ,,taktu einn dag í einu og njóttu stundarinnar!“ og það geri ég svo sannarlega því dagurinn í dag kemur ekki aftur í sömu mynd.

Sumarkveðjur frá Danmörku í páskahretið heima og gleðilega páska.

 

 

 

Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.

Eitt svar við Ro, ro, ro din båt

  1. Ásta sagði:

    ég var víst ekki búin að commenta hér eins og ég hélt 🙂
    Við hugsum allavegana til þín og hlökkum til að sjá þig aftur 🙂

Færðu inn athugasemd